Saturday, June 18, 2011

Góður dagur á ÍR-velli

Það var góður dagur fyrir okkur á ÍR-velli sl. miðvikudag en bæði A- og B-lið unnu sannfærandi sigra.

A-liðið svaraði kallinu eins og Hebbi bað um í laginu forðum, menn voru grimmir og einbeittir og við náðum strax undirtökunum. Siggi K skoraði eftir hornspyrnu eftir 10 mínútur, hinn sókndjarfi bakvörður Böðvar skoraði sitt annað mark á Íslandsmótinu á 23. mínútu og Flóki bætti þriðja markinu við fyrir hálfleik.
Ingvar bætti við sínu 8. marki á Íslandsmótinu eftir hlé með marki sem er orðið hálfgert vörumerki fyrir Gvara. Skáhlaup inn fyrir vörnina, Dagur vissi hvað klukkan sló og sendi laglega sendingu inn í svæðið og Ingvar afgreiddi boltann laglega yfir markvörð ÍR. Flóki skoraði svo fimmta markið þegar hann prjónaði sig laglega framhjá hverjum ÍR-ingnum á fætur öðrum og afgreiddi boltann snyrtilega í netið. Við slökuðum aðeins á einbeitingunni í lokin og fengum tvö slök mörk á okkur sem var algjör óþarfi en samt sem áður góð frammistaða lengst af leik og þrjú dýrmæt stig í hús.

B-liðið hélt uppteknum hætti og vann sinn þriðja leik á Íslandsmótinu með því að vinna ÍR 0-6. Fyrri hálfleikur var mjög góður. Atli Fjölnis opnaði markareikninginn eftir þunga sókn og bætti svo við öðru marki eftir um hálftíma leik. Nú héldu FH-ingum engin bönd og það má segja að leikmenn í 9.ÞÞ hafi farið hamförum því Anton Gunnar bætti við þriðja markinu og Sólon því fjórða fyrir hlé.

Við duttum aðeins niður eftir hlé en bættum engu að síður við tveimur mörkum. Máni skoraði laglegt mark á 47. mínútu og Arnar Helgi skoraði svo sjötta markið af miklu harðfylgi og góður 0-6 sigur staðreynd.

Við erum á góðu skriði en verðum að halda áfram að hamra járnið meðan það er heitt. Á miðvikudaginn fáum við KR í heimsókn og það verða hörkuleikir.

No comments:

Post a Comment