Friday, July 23, 2010

Pistill IV úr Svíaríki

Nú er dagur að kvöldi kominn hér í Gautaborg. Öll FH-liðin luku keppni í gær.

FH 1 í 15 ára liðinu (B-liðið á yngra ári) vöknuðu við fyrsta hanagal í gærmorgun og lögðu í langferð er þeir léku gegn Gransholms IF hinum megin í borginni. Leikvöllurinn var umvafinn miklu skóglendi og það rigndi eins og hellt væri úr fötu, má segja fyrsta alvöru rigningin í ferðinni en við höfum verið einstaklega heppnir með veður. Fannsio aðstoðarþjálfari var forsjáll og tók með sér hvíta regnslá sem hann ætlar með á þjóðhátíð. Það má segja að regnsláin hafi vakið athygli innfæddra en hún kom að góðum notum.
Það er skemmst frá því að segja að sænska liðið var talsvert sterkara og þrátt fyrir góða baráttu í FH-liðinu sigruðu Gransholms IF 0-4. Þrátt fyrir að vinna ekki leik verð ég að taka hatt minn ofan fyrir strákunum sem lögðu sig alltaf alla fram og tóku augljósum framförum.

FH 2 (A-liðið á yngra ári) lék gegn þýska liðinu Bonner CF laust eftir hádegi en þá hafði sólin rutt skýjaþykkninu frá og skein glatt. Þetta var leikur í 32-liða A-úrslitum en strákarnir höfðu eins og áður hefur komið fram unnið alla leiki sína til þessa.

Þetta var hörkuleikur og mikil barátta en við spiluðum kannski ekki eins vel og í fyrri leikjum. Mér fannst gæta ákveðinnar þreytu enda höfum við keyrt á sama mannskapnum í öllum leikjunum og flestir spilað hverja einustu mínútu og jafnvel leiki með 16-ára liðinu. Í þessum leik var Böðvar í leikbanni. Leikurinn var jafn en við fengum betri færi. Þeir áttu skot í stöng í seinni hálfleik og skalla eftir hornspyrnu en Tindur átti dauðafæri í fyrri hálfleik þegar hann skallaði rétt yfir og í seinni hálfleik átti Siggi K mjög gott færi, Ingvar átti skot sem þýski markvörðurinn rétt varði í horn og á síðustu mínútu leiksins slapp Flóki einn í gegn en enn sá markvörðurinn við okkur. Það var jafnt 0-0 eftir venjulegan leiktíma og þá var farið beint í vítaspyrnukeppni. Þar höfðu Þjóðverjarnir betur 6-5 og voru vonbrigði strákanna mikil. Þeir voru hársbreidd frá því að komast í 16-liða úrslit en geta engu að síður verið mjög stoltir af framgöngu sinni hér í Svíþjóð.

Stuttu seinna var 16 ára liðið að leika í 32-liða B-úrslitum. Þar héldur þeir áfram frá gærdeginum og áttu góðan leik og unnu Sandvikens IF 3-0 með mörkum frá Brynjari, Andra og Dodda.

Í gærkvöldi lékum við svo gegn Eskilminne IF í Aby sem er dálítið ferðalag. Þrátt fyrir geysimikla stemmningu í sporvagninum og í rútunni virtumst við ekki mæta alveg tilbúnir til leiks og við vorum slakir í fyrri hálfleik. Hálfleikurinn var viðburðasnauður. Danival átti skalla rétt framhjá og Svíarnir sluppu einu sinni í gegn en Jóhann Birgir varði vel. Allt annað FH-lið kom til leiks í seinni hálfleik og við lékum fínan fótbolta og sköpuðum okkur góð færi. Skutum í hliðarnetið, rétt framhjá, markvörðurinn varði en allt kom fyrir ekki. Við fengum svo blauta tusku í andlitið 2 mínútum fyrir leikslok þegar hægri bakvörður Eskilminne hamraði boltann í netið með þrumufleyg eftir að boltinn hafði borist út eftir hornspyrnu. Tíminn dugði okkur ekki til að jafna og því fór sænska liðið áfram. Sárgrætilegt en við gátum sjálfum okkur um kennt. Með meiri einbeitingu frá fyrstu mínútu hefðum við klárað þetta lið. En leikirnir eru það stuttir að það er ekki nóg að ætla sér að byrja í seinni hálfleik.
Það er sama með 16 ára liðið og hin tvö að strákarnir stóðu sig vel og sýndu sérstaklega gegn FC Angeln á miðvikudag og gegn Sandvikens í gærmorgun hvað í þá er spunnið þegar þeir eru einbeittir og samstilltir.


Dagurinn í dag var því frjáls dagur. Flestir strákanna fóru í Liseberg eða spókuðu sig um í bænum. Einhverjir fóru á diskótek í gær og það var "geðveikt fjör!"

Á morgun pökkum við saman og förum með rútu til Kaupmannahafnar og fljúgum síðan til Íslands. Ferðin er búin að vera frábær í alla staði og strákarnir til fyrirmyndar.

Hilsen fra Sverige.

1 comment:

  1. kem ekki á æfingar alla næstu viku er að fara til Belgíu
    - Brynjar Örn

    ReplyDelete