Þriðjudagurinn hófst með hörkuleik 16-ára liðsins gegn danska liðinu B 1921. Strákarnir komu einbeittir til leiks og í hálfleik var staðan 4-0 okkur í vil. Í seinni hálfleik slökuðum menn eilítið á klónni og lokatölur urðu 6-1 fyrir okkur. Brynjar 2, Doddi 2, Flóki 1 og Jakob settu mörkin.
Víkur nú sögunni að Överasvallen sem staðsettur er upp á skemmtilegri hæð í Gautaborg. Þar lék B-liðið á yngra ári, FH 1 gegn norska liðinu IK Grand Bodö og úr varð bráðskemmtilegur leikur. Norðmennirnir fengu víti á fyrstu mínútu en brenndu af. Réttlætinu fullnægt sögðu hafnfirskir áhorfendur á pöllunum. Rann nú sannkallað æði á okkar stráka sem léku feykilega vel og voru í senn óheppnir og klaufar að vera ekki yfir í hálfleik, brenndu m.a. af vítaspyrnu.
Markalaust í hálfleik en í upphafi þess síðari skoruðu Norðmennirnir ódýrt mark og svo annað í kjölfarið og eftir það var enginn vindur í okkar seglum og frændur vorir stráðu salti í sárið með þriðja markinu í lokin. En engu að síður góð frammistaða lengstum þó uppskeran væri rýr.
Á Slatte Damm vellinum í nágrenni við skólann náðum við hinsvegar fram hefndum fyrir þráláta viðleitni Norðmanna að eigna sér höfuðskáldið Snorra Sturluson þegar 15 ára liðið okkar FH 2 (A-liðið á yngra ári) sigraði Lilleström 3-2 í mögnuðum leik. FH-ingar voru sterkari í fyrri hálfleik gegn Norðmönnum sem beittu hinni svokölluðu kick and run aðferð. Við skoruðum 1 í fyrri hálfleik og var þar að verki Jón Már Ferró eftir hornspyrnu. Hann fagnaði gríðarlega eins og honum er lagið.
Seinni hálfleikur var ekki fyrir hjartveika. Norðmennirnir jöfnuðu metin þegar 15 mínútur voru eftir en Flóki kom okkur aftur yfir af harðfylgi. Þegar 5 mínútur voru eftir jöfnuðu svo Lilleström aftur eftir aukaspyrnu og mikla þvögu í teignum en Norðmennirnir þurftu á sigri að halda til að eiga möguleika að komast í A-úrslit. Síðustu mínúturnar reyndum við að knýja fram sigur án þess þó að opna allt upp á gátt. Tindur átti skalla í slá, Norðmennirnir vörðu á línu en á síðustu mínútu skallaði Siggi K glæsilega í mark Lilleström eftir hornspyrnu frá Antoni og tryggði FH sigurinn við gríðarlegan fögnuð.
Miðvikudagur:
Við vöknuðum kl. 6:00, minnti mig á mín gömlu fiskvinnsluár í Sjóla á unglingsárum. Aftur var haldið að Överasvallen með FH 1 og nú leikið gegn sænska liðinu Alsen IF og var leikurinn úrslitaleikurinn um 3. sæti riðilsins en ljóst var að bæði lið færu í B-úrslitin. Þetta voru tvö jöfn lið. Svíarnir náðu forystu og leiddu lengstum en Úlfar jafnaði með laglegu marki í seinni hálfleik eftir góða sendingu frá Arnari Steini. Á síðustu mínútunum fengu bæði lið færi til að gera út um leikinn en jafntefli niðurstaðan. Okkar strákar leika í 64-liða úrslitum B-keppninnar í fyrramálið, og aftur kl. 8.
Það var viss spenna í loftinu í dag í lokaleikjum riðlakeppninnar. Bæði A-liðið á yngra og eldra ári áttu möguleika að komast í A-úrslit. Yngra liðið var að vísu búið að tryggja sig áfram en með sigri gátu þeir tryggt sér sigur í riðlinum. Jón Már virðist heldur betur kunna við sig í sænsku hitasvækjunni en um 30 stiga hiti er búið að vera í Gautaborg síðustu daga. Í seinni hálfleik bættu Böddi og Flóki við mörkum áður en Svíarnir minnkuðu muninn úr víti undir lokin. Böddi fékk síðan rautt spjald að ósekju. Hann fékk gult spjalt og dómarinn hélt ranglega að hann hafði fengið spjald áður og gaf honum því rautt. Þrátt fyrir áköf mótmæli sat dómarinn við sinn keip og rauða spjaldið stóð. En strákarnir unnu þarna þriðja leik sinn í röð og eru komnir í 32-liða A-úrslit og spila um hádegisbil á morgun skv. sænskum tíma.
16-ára liðið lék gegn Þýska liðinu Angeln sem voru með fullt hús stiga 6 stig og markatöluna 7-0. Ramlösa Södra sem FH tapaði fyrir í fyrstu umferð voru með 3 stig og markatöluna 3-2, og við vorum með 3 stig og markatöluna 7-4. Síðasta umferðin fór fram á sama tíma á hinu skemmtilega grassvæði Grimbo. Það er skemmst frá því að segja að okkar strákar áttu frábæran leik. Doddi kom okkur yfir með stórbrotnu marki í fyrri hálfleik. Langskot efst í bláhornið. 1-0 í hálfleik og 1-1 á sama tíma í leik Ramlösa Södra og B 1921. Sem sagt leit mjög vel út. Enn batnaði staðan þegar Doddi bætti við öðru marki í seinni hálfleik. Stuttu síðar skoraði Brynjar J en markið var dæmt af vegna rangstöðu sem var vafasöm sögðu menn á pöllunum.
En á síðustu mínútunum rigndi mörkum hjá Ramlösa Södra gegn Dönunum í B 1921 og þeir skoruðu m.a. mark á síðustu andartökum leiksins og unnu 6-1. Þetta þýddi það að lokastaða riðilsins var þessi:
Ramlösa Södra 6 stig, markatalan 9-3.
FC Angeln 6 stig, markatalan 8-2.
FH 6 stig, markatalan 9-4.
B 1921 0 stig.
Sem sagt það vantaði 1 mark að við ynnum riðilinn og færum beint í 32-liða úrslit. Strákarnir voru svekktir og sárir en þeir mega vera mjög ánægðir með sína frammistöðu. Þeir verða bara að hrista af sér svekkelsið og einbeita sér að næsta leik. Á morgun leika þeir í 32-liða úrslitum B-úrslitanna.
Eins og áður sagði er veðrið frábært. Strákarnir eiga alltaf stund milli stríða og er þá gjarnan leikið sér á skólalóðinni, kíkt á stelpurnar, eða farið niðrí bæ og Liseberg tívólíið er sívinsælt. Vonandi gengur vel á morgun. Það er ljóst að það eru alltaf hörkuleikir í útsláttarkeppni en það er mikil og góð stemmning í hópnum. Annað kvöld er svo diskótek fyrir krakkana og er tilhlökkunin ekki minni fyrir því.
Kveðja - frá Gautaborg.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
kem ekkert á æfingu á næstunni er að fara upp í sumarbústað og verð þar í einhvern tíma
ReplyDeleteSiggi Th.