Tuesday, May 3, 2011

Sigrar gegn HK

Fyrri hálfleikurinn hjá A-liðinu var góður. Við létum boltann ganga vel og það var sérstaklega góð hreyfing á miðjunni. Við skoruðum snemma (sjálfsmark) og svo bætti Ingvar a.k.a. "Veiðimaðurinn" við öðru marki. Við áttum að skora fleiri mörk en meistari Guðjón Þórðarson myndi segja að hefðum ekki verið nógu miskunnarlausir í okkar nálgun!

Við töluðum um það í hálfleik að halda áfram af sama dampi því leikurinn væri langt frá því að vera búinn. Fyrstu mínútur seinni hálfleiks einkenndust af hundi sem vildi vera með inn á vellinum. Ég veit ekki hvort seppi hafi slegið okkur út af laginu því við vorum alltof værukærir og latir og HK náði að jafna leikinn 2-2. Það verður þó að segja ykkur til hróss að við brettum upp ermarnar og skoruðum sigurmarkið um 10 mínútur fyrir leikslok eftir skemmtilega fléttu í óbeinni aukaspyrnu. Beint af æfingasvæðinu.... eða þannig! Alltaf gaman að sjá þegar leikmenn hafa hugmyndaflug og dirfsku til að gera eitthvað óvænt og það skilaði sigurmarkinu sem Lalli markaskorari skoraði og tryggði 3-2 sigur.

Það var gott að vinna leikinn. Við sýndum karakter, og ekki í fyrsta skipti, að koma til baka og klára leikinn. Það er styrkleikamerki að við höldum áfram og klárum jafna leiki. Eins gekk boltinn yfirleitt vel og það voru margar góðar færslur hjá okkur.

Hins vegar féllum við í þá gryfju að halda að björninn væri unninn. Þannig er það sjaldnast nema fyrir aumingja ísbirnina sem eru svo óheppnir að villast á þessa eyju. Við sluppum í þetta sinn en við verðum að læra af þessu, við getum ekki leyft okkur að slaka á, það þarf að gera út um leikina.


B-leikurinn fór 17-1. Í rauninni er fátt um hann að segja því yfirburðirnir voru of miklir. En ég get sagt ykkur til hróss að við héldum leikskipulaginu, létum boltann ganga og spiluðum á tempói allan tímann. Það er auðvelt að missa sig í einspil og einhverja vitleysu en þið spiluðuð sem lið og voruð á fullu allan tímann og fáið stóran plús fyrir það.

Ég man ekki hverjir skoruðu öll mörkin en eins og ég man þá skoruðu þessir (þið leiðréttið mig bara í athugasemdunum: Siggi T 5, Gunnar Davíð 4, Tómas 2, Nóri 2, Sólon 1, Arnar Helgi 1, Máni 1 og Arnar Steinn 1.

2 comments:

  1. Flottur pistill orri!
    kv JAAAM

    ReplyDelete
  2. kemst því miður ekki á æfingu í dag er orðinn veikur

    Sólon

    ReplyDelete