Friday, May 20, 2011

Bréf til foreldra

Við sendum eftirfarandi bréf til foreldra varðandi sumarið...

  • Æfingaferðin í Þorlákshöfn gekk mjög vel. Allur aðbúnaður var góður og maturinn framúrskarandi. Eins og ég var búinn að segja fyrir ferðina þá greiddum við 9.000 krónur til Ölfussports vegna gistingar, aðstöðu og matar. Krakkarnir borguðu okkur 10.000 krónur því við vildum hafa borð fyrir báru til þess að eiga fyrir t.d. kvöldkaffi og einhverjum öðrum útlátum. Það fór hins vegar svo að við þurftum því ekkert að nota þennan umfram 1.000 krónur þannig að krakkarnir eiga þann pening óskiptan. Það voru 51 krakkar og því er 51.000 krónur í sjóðnum sem við höfðum hugsað okkur til að nota við gott tækifæri nú snemma sumars að gera eitthvað skemmtilegt með krökkunum, t.d. halda góða grillveislu.En krakkarnir voru til fyrirmyndar og ég vona að allir hafi skemmt sér vel.
  • Nú er Íslandsmótið að hefjast. Við getum öll verið sammála um það að góðir dómarar sem mǽta tímanlega og leggja sig fram eru ómissandi í að skapa þá umgjörð sem við viljum sjá. Það er mikið ánægjuefni að dómgæslumál hafa tekið stakkaskiptum hjá FH undanfarin 2 ár og eru nú í nokkuð góðu horfi. Það er ekki síst vegna þess að áhugasamir foreldrar hafa tekið dómarapróf og verið virk í dómgæslu yngri flokka. Í meðfylgjandi bréfi er foreldrum boðið upp á að taka dómaranámskeið og þeir hvattir til að taka þátt í að mynda góða umgjörð í heimaleikjum yngri flokka FH.
  • Við ætlum í sumar að kynna fyrir strákunum þá áratuga hefð í FH að drekka Melroses te og ristað brauð ásamt því að gæða sér á ávöxtum og safa fyrir leik. Við stefnum á að hafa nú í upphafi sumars einu sinni te & rist fyrir hvert lið þ.a. allir upplifi þá stemmningu að hittast 2 tímum fyrir leik, fá sér ristað brauð og drekka te eins og heldri menn. Þá borgar hver leikmaður 300 kall í púkkið. A-liðið ætlar að ríða á vaðið nú á laugardaginn og svo er röðin komin að hinum liðunum nú í næstu leikjum. Áhugasamir foreldrar sem vilja hjálpa til við þetta eru hvattir til að setja sig í samband.
  • Í Íslandsmótinu eiga leikmenn alltaf að vera mættir klukkutíma fyrir leik og með allt á hreinu. Stuttbuxur, sokka, legghlífar, burstaða skó og tilbúnir í leikinn.
  • Í vetur unnum við mikið í styrktaræfingum með eigin líkamsþyngd. Það er mikilvægt á þessum aldri að unglingar styrki líkamann með réttum æfingum, bæði til að styrkjast en einnig sem forvörn gegn meiðslum. Við létum strákana fá blöð með einföldum styrktaræfingum sem þeir eiga að vinna í heima. Það er að sjálfsögðu undir hverjum og einum komið hversu duglegir eða metnaðarfullir þeir eru en það er líka gott að þið vitið af þessu og ýtið við þeim. Blaðið er hér í viðhengi.
  • Við vonumst eftir því að sjá ykkur sem flest á vellinum í sumar. Það hefur verið góður og jákvæður stuðningur við strákana hingað til og vonandi verður svo áfram. Það er ágæt regla, þar sem því er viðkomið, að varamannabekkir séu á einni hlið en áhorfendur hinumegin. Ég veit að þannig á það að vera í Kaplakrika í sumar á æfingagrasinu (efra grasinu) en umhverfis miðgrasið/frjálsíþróttavöllinn er áhorfendum frjálst að sitja allan hringinn.
  • Foreldraráðið er skipað Huldu (mömmu Ellerts), Gísla (pabba Helga) og Svani (pabba Úlfars). Þið getið einnig snúið ykkur til þeirra með góðar ábendingar eða hugmyndir og þeir sem eru áhugasamir geta auðvitað bæst í þennan góða hóp.
Með kveðju - Þjálfarar.

No comments:

Post a Comment