Saturday, March 26, 2011

Hörkuleikir gegn Eyjapeyjum

Það voru þrír hörkuleikir gegn Eyjamönnum í dag


A-liðið vann 3-2. ÍBV komst yfir en Anton jafnaði með þrumuskoti og Siggi K kom okkur síðan yfir fyrir hlé. Eyjamenn jöfnuðu um miðjan fyrri hálfleik en um 8 mínútur fyrir leikslok skoraði Anton sigurmarkið eftir laglega sókn.

Við byrjuðum frekar rólega en okkur óx ásmegin eftir því sem á leið og áttum oft góða spilkafla. Við sýndum líka karakter að halda áfram og klára leikinn. Nú höfum við spilað tvo hörkuleiki á þremur dögum og unnið þá báða og erum því með 6 stig. Það sem við getum gert betur er að nota færri snertingar, við erum of oft að snúa með boltann blint inn í menn í stað þess að senda í fyrstu snertingu til baka. Eins þurfum við að vinna betur í því að skipta um kant, það var framför í þessum leik en við þurfum að halda áfram að vinna í því.



Það var líka hörkuleikur hjá B-liðinu, þar unnum við góðan 5-2 sigur. Framherjaparið Úlfar og Oliver sáu um að skora mörkin en Úlfar skoraði þrennu og Oliver tvö. Það voru mjög góðir spilkaflar í leiknum og ánægjulegt hvað þið virðist vera fljótir að tileinka ykkur ýmsar færslur. Framherjaparið náði virkilega vel saman og fóru oft illa með vörn ÍBV. Einn punktur sem við megum bæta er að miðverðir gefi dýpt þegar við erum með boltann til þess að við getum notað varnarmennina til þess að flytja boltann á milli kanta.



Seinasti leikurinn var ekki fyrir hjartveika. FH-ingar voru ívið sterkari í fyrri hálfleik en á lokasekúndum hálfleiksins þegar góður dómari leiksins Emil Stefánsson var að fara að blása til hálfleiks skoruðu Eyjamenn og náðu forystunni 0-1. FH-ingar komu ákveðnir til seinni hálfleiks og sóttu stíft fyrstu mínúturnar en inn vildi boltinn ekki. Eyjamenn komust aftur betur inn í leikinn og virtust hafa gert út um hann um 10 mínútur fyrir leikslok er þeir bættu við öðru marki 0-2. En FH-ingar lögðu ekki árar í bát og Bjarki Freyr minnkaði muninn þegar um 6 mínútur voru til leiksloka. Nú voru FH-ingar komnir með blóðbragð í kjaftinn og sóttu ákaft og pressuðu um allan völl. Sú pressa bar verðskuldaðan árangur þegar Gunnar "Nani" Kristjánsson jafnaði leikinn með þrumufleyg fyrir utan teig neðst niðrí markhornið. 2-2 og enn nokkrar mínútur eftir. Við pressuðum en Eyjamenn áttu stórhættulega skyndisókn á síðustu mínútunni sem Arnar Helgi varði stórkostlega í horn og var hreinlega eins og Maggi Árna væri kominn í markið. En við geystumst upp og áttum tvær hornspyrnur en inn vildi boltinn ekki og 2-2 jafntefli í hörkuleik.



Þetta var því mjög góður dagur hjá okkur. Margir leikmenn áttu virkilega góðan dag og svo voru úrslitin góð á móti sterku Eyjaliði sem við eigum eftir að mæta á Íslandsmótinu í sumar.

No comments:

Post a Comment