Nú þegar gul og rauð laufblöð falla svífa eins og fallhlífar til jarðar, aðalbláberin halda fast í lyngið og spikfeitt féð rennur niður fjallshlíðarnar eins og fossar í vorleysingum, er ekki úr vegi að líta um öxl. Taka stöðuna.
Í 3. flokki voru um 50 strákar. Við æfðum vel í vetur, tvær styrktaræfingar og þrjár fótboltaæfingar að jafnaði. Í sumar æfðum við 4-6 sinnum í viku, það fór eftir leikjum.
Langflestir ykkar mættu virkilega vel og voru áhugasamir. Sérstaklega voru þeir til fyrirmyndar sem mættu á æfingar og horfðu á þegar þeir voru meiddir. Það skiptir miklu máli. Þeir leikmenn eru að senda jákvæð skilaboð til liðsins og þjálfaranna að þeim sé annt um liðið og séu í þessu af alvöru. Mér fannst andinn í hópnum góður.
Ég er mjög ánægður með að fjöldinn hefur haldið sér, það hefur orðið lítið sem ekkert brottfall. Það eru allir mikilvægir í hópnum, hvort sem menn eru í A-, B- eða C-liði og það er aldrei að vita hvenær menn springa út sem knattspyrnumenn.
Við ætluðum í æfingaferð í vor til Víkur í Mýrdal eins og í fyrra en Eyjafjallajökull setti strik í reikninginn en þess í stað fórum við í góða æfingaferð ásamt 3. flokki kvenna til Hveragerðis.
Í allan vetur voru menn svo að safna fyrir Svíþjóðarferðinni undir styrkri stjórn fjáröflunarnefndar og ég vil nota tækifærið að þakka þeim foreldrum sem lögðu hönd á plóginn kærlega fyrir.
Gothia-cup var algjörlega frábær ferð. Ég hef farið í margar keppnisferðir innanlands sem utan en þessi var örugglega í topp þremur. Bæði var ég ánægður með ykkur inn á vellinum en ekki síður voruð þið frábærir utan vallar og algjörlega til fyrirmyndar. Þó svo ein og ein taska hafi hangið í háloftunum!
Ekki spillti fyrir frábær fararstjórn og legendið Fannsi Gumm!
Íslandsmótið:
Á Íslandsmótinu tefldum við fram þremur liðum, A-, B- og C-liðum. Eftir á að hyggja hefði okkur ekki veitt af fjórða liðinu því oft var þétt setinn bekkurinn hjá C-liðinu, sérstaklega fyrri hluta sumars.
Hjá C-liðinu var markmiðið fyrst og fremst að láta alla spila, en að sjálfsögðu líka að fara í hvern leik til að vinna og taka framförum.
Fjölnismenn voru með sterkasta liðið en gegn hinum liðunum Breiðabliki og Fylki fengum við hörkuleiki.
Í C-liðinu spiluðu einkum strákar á yngra árinu. Við þjálfararnir urðum margs vísari um ykkur sem leikmenn, hvaða stöður henta ykkur best o.s.fr.v. Það á eftir að nýtast okkur vel á komandi vetri. Margir leikmenn tóku miklum framförum, sérstaklega varðandi leikskilning. Það var jákvæður og góður andi í liðinu og við þjálfararnir höfðum gaman af að vera með ykkur.
Eftirminnilegustu leikir:
Báðir leikirnir gegn Fylki í Árbænum. Brynjar Smári skoraði 4 mörk í 0-4 sigri 31. maí. Toppbyrjun á mótinu og svo annar sigur 2-3 laugardaginn 7. ágúst með mörkum frá Brynjari Erni, Bödda og Hlyni.
B-liðið varð eins og allir vita Íslandsmeistarar. Framan af móti voru okkar styrkleikar fyrst og fremst góður og skipulagður varnarleikur og svo mikil barátta.
Við komum okkur í vænlega stöðu en töpuðum svo tveimur leikjum í röð í ágúst. Gerðum okkur seka um mikið kæruleysi gegn Víkingi þegar við köstuðum frá okkur leik sem við áttum fyrir löngu að vera búnir að ganga frá. Svo töpuðum við gegn Fjölni í næsta leik í afar kaflaskiptum leik. Það má samt segja að sá leikur hafi kristallað ákveðna veikleika í okkar leik sem við þurftum að bæta og við gerðum það heldur betur það sem eftir lifði móts.
Við töluðum um það eftir Fjölnisleikinn að við þyrftum að fara fjallabaksleiðina í úrslitin og þetta væri samt í okkar höndum. Við kláruðum Breiðablik með stæl, 6-2 og 7-2, tókum svo Haukana 4-0 á Ásvöllum og svo Fjölni nokkuð örugglega 2-0 í úrslitum.
Eftirminnilegustu leikir:
1-2 baráttusigur í Árbænum í "Öskuleiknum" 29. maí. Svifryk á höfuðborgarsvæðinu fór 40 falt yfir hættumörk. Fylkismenn 1-0 yfir lengstum leiks en FH-ingar knúðu fram sigur með tveimur mörkum undir lokin. Aron Elí spilar á annarri löppinni og neitar að fara út af og Gulli setti heimsmet í föstum áætlunarferðum upp hægri vænginn.
2-3 tap gegn Víkingi miðvikudaginn 18. ágúst eftir að hafa verið 2-0 yfir í hálfleik og fengið ótal tækifæri til að klára leikinn. Víkingar skoruðu sigurmarkið í uppbótartíma. Bitum í beiskan ávöxt þar. Svo að sjálfsögðu þessir fjórir leikir sem við urðum að vinna í leiðina að bikarnum. Báðir leikirnir gegn Blikum, undanúrslitin gegn Haukum og rúsínan í pylsuendanum þegar við tókum brasilískt samba í rigningunni í Grafarvoginu og tryggðum okkur titilinn. Þar unnum við innan sem utan vallar!
A-liðið: Við vissum það fyrir mótið að við þyrftum að hafa fyrir öllu því sem við fengjum á þessu Íslandsmóti. Til þess að hala inn stig þyrftum við að vera upp á okkar besta. En ég var líka sannfærður um það að á góðum degi gætum við sigrað hvaða lið sem er.
Við lögðum allan tímann upp með það að spila góðan fótbolta, reyna að byggja upp spil frá aftasta manni ef þess var kostur. Aðrar leiðir hefðu hugsanlega verið vænlegri til skammtíma árangurs en við erum að reyna að þroska og bæta ykkur sem knattspyrnumenn og þrátt fyrir að uppskeran í stigum talið hafi verið rýr, þá að þið hafið tekið margvíslegum framförum.
Sérstaklega finnst mér þið hafa bætt ykkur í sendingum og að halda bolta. Einnig fannst mér menn verða öruggari að bera boltann upp, varnarlínan var orðinn meira samtaka og þið náðuð betri tökum á ákveðnum færslum í sóknarleiknum.
Almennt má einnig segja um '94 árganginn að okkur vantar dálítið upp á líkamlegu hliðina, hæð, styrk og hraða. En það eigið þið inni! Það sem við getum hinsvegar bætt okkur í er að sýna meiri keppnishörku og sigurvilja. Við verðum að hjálpa samherjununum og hvetja hvern annan meira inn á vellinum miklu meira.
Við byrjuðum mótið illa. Fengum við 1 stig út úr þremur fyrstu leikjunum gegn Fram, Keflavík og Fylki þegar við hefðum hæglega geta fengið 9. Í næsta leik á eftir gegn Stjörnunni gáfum við mörk á silfurfati þegar við vorum við það að ná yfirhöndinni í leiknum. Þetta fannst mér dálítið gefa tóninn, við vorum oft sjálfum okkur verstir og kláruðum ekki jafna leiki.
Það skiptir máli að byrja mótið vel, sérstaklega þegar um svo fáa leiki er að ræða, þá byggist upp sjálfstraust og þegar það er komið þá byrjar boltinn að rúlla með manni. Þegar ég lít til baka þá áttum við að spila enn fleiri æfingaleiki. Sérstaklega þar sem við erum alltaf að æfa á mjög litlu svæði og fáum aldrei stóran völl til að æfa á í einhverjua 7-8 mánuði. Við vorum ekki nógu rútínerað lið þegar mótið hófst.
Svíþjóðarferðin var frábær í alla staði og ég var mjög ánægður með ykkur þarna úti. Skipt var í lið eftir árgöngum og þá fannst mér koma þessi samheldni og kemistría sem mér fannst vanta á Íslandsmótinu. Þarna úti fæddist sú hugmynd hjá mér halda þessari skiptingu þegar heim væri komið. Mér fannst það gæfuspor og rétt ákvörðun. Með því fannst mér fleiri njóta sín, menn voru að spila í þeim stöðum sem þeir nutu sín best það var jafnari fókus á hvort lið fyrir sig.
Mér fannst það mikið styrkleikamerki hvernig við enduðum mótið þrátt fyrir að stigin hafi ekki verið að þvælast fyrir okkur. Við lékum á móti þremur bestu liðinum og vorum klaufar að fá ekkert út úr þeim. Einhverjir hefðu gefist upp og látið tímabilið renna út í sandinn en ykkur til hróss þá lögðuð þið ykkur alla fram og sýnduð góða frammistöðu. Ef þið berið saman leikina gegn Víkingi og Breiðabliki fyrri hluta sumars þegar við töpuðum 6-1 á Víkingsvelli og 0-5 í bikarnum gegn Breiðabliki þá var þessi frammistaða miklu, miklu betri og úr urðu hörkuleikir. Okkur vantaði kannski ákveðið sjálfstraust til að vinna leikina og eins og ég hef áður sagt ákveðinn hraða og kraft fram á við. Þá sjáum við líka að bilið milli okkar og þessara toppliða er ekki mikið þegar við leggjum okkur alla fram eins og við sáum t.d. gegn HK í bikarnum í sumar þegar við unnum þá örugglega 3-0. Við hefðum þurft að ná fleiri slíkum leikjum.
Niðurstaðan er sú að þrátt fyrir brösótt gengi hjá A-liðinu í sumar þá enduðuð þið tímabilið af krafti og sýnduð mikinn styrkleika og karakter.
Við þjálfararnir héldum fund með ykkur á sunnudag þar sem við fórum yfir liðið tímabil og einnig fórum við yfir á fundi með hverjum og einum kosti viðkomandi leikmanns en einnig hvað þarf að bæta. Vonandi getið þið nýtt ykkur þessa punkta í framhaldinu.
Eins og ég hef áður sagt við '94-strákana þá eigið þið eftir að stækka og styrkjast og þar af leiðandi að bæta við ykkur hraða og krafti. Þið hafið ágætan grunn og eruð í framför og ég spái því að margir ykkar eigi góða möguleika að blómstra á næstu misserum og árum. Um leið og við þökkum ykkur fyrir samveruna og skemmtilegt ár þá óskum við ykkur velfarnaðar í 2. flokki og vonum að sem flestir haldi áfram að reima á sig takkaskóna.
Eftirminnilegustu leikir:
Fram - FH 1-1 í Safamýrinni föstudaginn 21. maí. Fyrsti leikur í mótinu. Dómarinn flautaði svona 80 aukaspyrnur í leiknum, við spiluðum illa en vöknuðum til lífsins síðasta korterið. Hentum þá öllu nema baðherbergisvasknum á Framarana. Skutum tvisvar í tréverkið og Doddi átti hjólhestaspyrnu í slá og víti fór forgörðum en allt kom fyrir ekki. Kvöldið fullkomnað með slakri bíómynd í Kringlubíói, Persíuprinsinn sem kvikmyndagúrú flokksins Tómas Geir Howser gaf ekki nema 2 stjörnur.
Keflavík - FH 1-2. Fyrsti sigurinn á Íslandsmótinu. Fyrri hálfleikur frábær, Róbert Leó mundaði í fyrsta skipti leynivopn sitt sem hann hafði bætt við í vopnabúr sitt frá því í fyrra, langar góðar sendingar í svæði inn fyrir varnarlínuna. Það gaf góð færi í leiknum. Keflvíkingar enduðu leikinn 9 og við höluðum inn 3 stig.
FH - HK 3-0 í bikarkeppninni. Besti leikur okkar í sumar gegn mjög sterku liði. Sýndum hvað í okkur býr og sigurinn sanngjarn.
Breiðablik - FH 2-0. Síðasti leikurinn í Íslandsmótinu. Breiðablik skoraði strax í byrjun en eftir það var leikurinn í járnum og mátti ekki á milli sjá hvort liðið væri á toppnum og hvort við botninn. Blikarnir innsigluðu sigurinn með síðustu spyrnu leiksins. Við gátum verið svekktir með úrslitin en við enduðum mótið eins og menn, með því að gefa allt í leikinn.
Takk Orri fyrir árið sem er að líða.Frábært að lesa þennan pistil og vekur mann bara til umhugsunar hvað árið er búið að vera skemmtilegt.Vil þakka þeim foreldrum sem stóðu vaktina í allt sumar frábær hópur.Kveðja Ásta
ReplyDeleteVel gert, en hvenar byrjar næsta tímabil?
ReplyDeleteBöddi.
hvenar er lokahófið
ReplyDeleteGóður pistill gamli!
ReplyDelete-Bond