Tuesday, July 13, 2010

Úr leik í bikarnum

Við féllum úr bikarnum í kvöld þegar við töpuðum 0-5 gegn Breiðabliki í 8-liða úrslitum á miðgrasinu í Kaplakrika.

Það er skemmst frá því að segja að við spiluðum afar illa og verðskulduðum ekki neitt úr þessum leik. Það má segja að við vorum að sumu leyti sjálfum okkur verstir í fyrri hálfleik. Við reynum að byggja upp spil frá aftasta manni en við vorum ekki að flytja boltann nógu vel úr vörn í sókn. Það er nauðsynlegt að koma líka með lengri sendingu fram á við og við verðum að geta fundið kantmennina okkar í fætur.

En almennt fannst mér sendingar slakar og við fundum einhvern veginn ekki takt í okkar spil. Við einfaldlega of linir út um allan völl, unnum hvorki fyrsta né annan bolta. Menn voru seinir að hreyfa í átt að boltanum til að reyna vinna hann, við unnum varla skallabolta eða návígi og fengum á okkur slök mörk.

Það var ekki að sjá á okkur að við værum lið sem ætluðu að leggja allt í sölurnar til að vinna. Þegar hlutirnir gengu ekki upp, hengdu of margir haus í stað þess að bretta upp ermarnar og bæta í. Einnig fannst mér of mikið um tuð inn á vellinum. Vissulega er stundum nauðsynlegt að láta menn heyra það ef þeir eru ekki að skila sínu en almennt séð verðum við að fá það besta út úr samherjum okkar með jákvæðri hvatningu.

Ég held að við getum verið sammála að við getum betur og eigum að gera betur. Ekki það að allir hafi verið slakir, en mér fannst alltof margir eiga dapran leik. Ég vil taka út tvo menn sem ég var ánægður með. Mér fannst Halldór í markinu skila sínu mjög vel. Eins fannst mér Flóki eiga ágætan dag. Barðist vel og vinnslan var gríðarlega góð,vann alla skallabolta og var duglegur fram á síðustu mínútu.

Nú verðum við að gjöra svo vel og koma dýrvitlausir í næsta leik gegn Fram. Það verður hörkuleikur og við verðum að koma inn í hann eins og hungruð ljónahjörð og berjast fyrir sigri og eiga góðan leik.

No comments:

Post a Comment