Thursday, December 17, 2009

Að lokinni haustönn

Við spiluðum nokkra leiki í vikunni sem gengu upp og ofan.

Eins og ég hef áður sagt þá hef ég notað haustleikina til að skoða leikmenn í hinum ýmsu stöðum á vellinum. Í þessum leikjum í vikunni var sérlega mikil tilraunastarfsemi í gangi auk þess sem það vantaði fjölda sterkra leikmanna sem hefur dómínóáhrif í gegnum öll liðin.

Ég kippi mér ekki upp við þó svo að úrslitin eða frammistaðan hafi ekki verið góð. Við vitum það allir hve erfitt það er að ná saman í vörn og sókn þegar miklar breytingar eru og menn að spila nýjar stöður. Ég get þó sagt að þessir haustleikir voru allir mjög gagnlegir og eftir áramót förum við í það m.a. að búa til liðsheild og vinna í leikskipulagi. Það býr margt í hópnum og ég er sannfærður um að við getum gert góða hluti.


En það er eitt sem við getum gert miklu, miklu betur. Það er að tala saman, stjórna og láta heyra í sér og vera miklu harðari og agressívari. Þið eruð fullmiklir skátar inn á vellinum. Við fáum engin verðlaun fyrir að vera prúðasta liðið! Þeir sem eru ekki tilbúnir í átök og baráttu ættu að huga að útilegubúnaðinum, prímusnum og varðeldinum. Þetta segi ég með fullri virðingu fyrir skátahreyfingunni og því góða starfi sem þar er unnið!

Jón Páll er sem kunnugt er tekinn við Hetti og þau störf munu taka æ meiri tíma á nýju ári. Því hef ég ákveðið að Heimir Snær Guðmundsson taki við sem aðstoðarþjálfari auk þess sem ætlunin er að Silja Úlfarsdóttir komi að hraða- og styrktarþjálfun. Tommy Nielsen mun einnig verða okkur innan handar.

Ég vil þakka Jóni fyrir hans góðu störf en við fáum tækifæri til að kveðja hann almennilega á nýju ári þegar við höldum fund/skemmtikvöld!

Við tökum ágætis jólafrí en byrjum aftur föstudaginn 8. janúar. Eftir það verður æft linnulítið og keppt fram í september og spennandi ár framundan! Faxaflóamót, Íslandsmót, bikarkeppni og síðast en ekki síðst Gothia-cup!

3 comments:

  1. Við ættum allir að standa upp og klappa rækilega fyrir jóni pál. kv Jón Már :)

    ReplyDelete
  2. Jóni Pál???


    Róbert

    ReplyDelete