Saturday, October 17, 2009

Tveir sigrar og eitt tap

Kaplakriki 17. október kl. 14:00.
FH - Afturelding, A-lið 4-2 (0-1) Brynjar J 3, Andri J 1.
Jóhann Birgir, Emil, Danival, Jón Arnar, Róbert, Aron Elí, Andri, Alex Birgir, Böðvar, Brynjar J, Flóki, Lárus og Ingvar.

4-Það rigndi eins og hellt væri úr fötu, blaut suðaustanáttin slóst eins og úldin gólftuska í andlit leikmanna (og þjálfara), svargrá skýin grúfðu sig yfir gervigrasvöllinn sem var eins og einmana krá í villta vestrinu árið 1880 og eitthvað. En hér voru engir í billjard, enginn að spila á falskt píanó, engar gleðikonur og ekkert kasínó. Hins vegar var þessi fornfrægi völlur, vettvangur fyrstu leikja 3. flokks karla í Faxaflóamóti að hausti. Andstæðingarnir voru úr Mosfellsveit, sveitungar Nóbelskáldsins sáluga, sem átti einmitt heima í Mosfellsdalnum eins og annar skáldjöfur nokkurhundruð árum á undan, sjálfur Egill Skallagrímsson sem bar beinin að Mosfelli ef ég man rétt.

En svo fór Select-boltinn að rúlla á þessum flóðlýsta græna ferhyrningi. En það er skemmst frá því að segja að við fundum engan veginn taktinn í fyrri hálfleik. Boltinn gekk illa og við vorum skrefinu á eftir Aftureldingu um allan völl. Kristján Flóki átti þó besta færi hálfleiksins en Mosfellingar björguðu á línu. Þegar aðeins þrjár mínútur lifðu fyrri hálfleiks náðu gestirnir verðskuldaðri forystu.

0-1 í hálfleik. Ekki draumastaða. Við vissum að við yrðum ekki eins og sjálfspilandi spiladós í fyrsta leik en við vorum hins vegar ekki að leggja okkur alla í leikinn. Það vantaði einfaldlega að menn væru á tánum og væru að berjast á fullu.

Það er skemmst frá því að segja að hugarfarið var allt annað og betra í seinni hálfleik. Andri Jónasar jafnaði fljótlega metin og enn færðust FH-ingar í aukana. Við náðum fínum tökum á leiknum og Brynjar Jónasson gerði út um leikinn með þremur mörkum áður en Afturelding lagaði stöðuna undir lokin. Úrslitin 4-2.

Eins og gefur að skilja eigum við eftir að bæta okkar leik heilmikið. Þetta var ekkert sérstakur leikur af okkar hálfu en mér fannst samt mjög jákvætt að við sýndum sterkan karakter, unnum okkur vel inn í leikinn eftir slakan fyrri hálfleik og uppskárum að lokum góðan sigur. Ási dæmdi leikinn og fórst það vel úr hendi, aðstoðardómararnir; millivegalengdarhlauparinn Finnbogi Gylfason og Þorvaldur "Doddi" Sveinbörnsson beittu flagginu af miklu öryggi.


Kaplakriki 17. október
FH - Afturelding, B-lið 11-2 (3-1). Siggi Bond 4, Biggi Hösk 2, Jakob 2, Brynjar Smári 1, Siggi K 1 og Tindur 1.
Anton, Siggi K, Jón Már, Biggi Hösk, Siggi Th, Dagur, Aron K, Tindur, Jakob, Siggi Bond, Brynjar Smári og Gulli.

Boðið var upp á markaveislu hjá B-liðinu. Jakob sem lék í stöðu vinstri kantmanns opnaði markareikning sinn á verðtryggðri bók 3. flokks með tveimur mörkum og kom svarthvíta liðinu 2-0 yfir. Mosfellingar minnkuðu muninn með skoti utan af velli, óverjandi fyrir Tona Barthez í markinu. Birgir "Höskí" Höskuldsson róaði þandar taugar áhorfenda með þrumuskalla eftir góða hornspyrnu. 3-1 fyrir FH í hálfleik.

Seinni hálfleikur var sannkölluð veisla, enda á FH 80 ára afmæli um þessar mundir. Siggi Bond setti 4 kvikindi, Höskí seníor mætti á hjólinu í seinni hálfleik og var einmitt að bölva því að missa af eina marki sonar síns í yngri flokkum þegar Höskí júníor stökk eins og lax í straumi og hamraði boltann með pönnunni í netið, sjaldan er báran stök! Siggi Kjartans setti 1 og Tindur setti rjómann og kirsuberið á afmæliskökuna með tveimur mörkum til viðbótar. FH-ingar fögnuðu ákaft í leikslok þegar hundblautur, en röggsamur dómari leiksins, Steinar Ó. Stephensen flautaði leikinn af.

Það verður að segjast eins og er að við vorum mun sterkara liðið í dag. En það er stundum auðvelt að detta niður í meðalmennskuna og "gera bara það sem þarf". Ykkur til hróss þá hélduð þið dampi allan tímann og yfirburðir ykkar sáust á úrslitunum. Þannig á það að vera.

B 2 -liðið lék kl. 14:00 í Fífunni gegn Breiðabliki. Heimamenn höfðu 5-0 sigur. Jón Páll var með þann leik og kemur kannski með stutta frásögn af leiknum. Mér skilst að byrjunin hafi verið slök, við höfum lent 5-0 undir eftir 25 mínútur en eftir það hafi leikur FH-liðsins lagast mikið. Við lærum af því sem miður fór og byggjum ofan á það sem við gerðum vel.


Það verður að segjast eins og er að eftir að hafa fylgst með ykkur á æfingum nú í upphafi tímabils og svo í þessum leikjum í dag þá er það ljóst að samkeppni um stöður verður gríðarlega hörð. Ég tel að við höfum góða breidd í hópnum og ágæta blöndu. Við eigum eftir að nýta haustið og veturinn til að spila marga leiki. Það er ljóst að við notum þessa leiki til að skoða ýmsa möguleika, það á eftir að vera hreyfing á mönnum milli liða og við eigum eftir að prófa marga leikmenn í fleiri en einni stöðu. Þess vegna er mikilvægt að þið stundið æfingarnar vel og mætið á æfingar og í leiki staðráðnir í að gera ykkar besta og vinna. Hvort sem það er 1:1 á æfingu, sendingabolti eða kappleikur með FH.

Kv. þjálfarar

No comments:

Post a Comment