Saturday, October 24, 2009

Tap og sigur í Fífunni

Fífan, 24. október 2009 kl. 12:15, Haustfaxi A-liða.

Breiðablik - FH 5-2 (1-0) Brynjar Jónasson, Böðvar Böðvarsson.

Liðið: Alex, Aron Elí, Brynjar, Böðvar, Dagur, Danival, Emil, Flóki, Ingvar, Jóhann Birgir, Jón Arnar, Lárus og Siggi Thorst.

Þegar 6 mínútur voru til leiksloka voru FH-ingar 1-2 yfir og ekkert sem benti til annars en þeir færu með sigur í leiknum. En skjótt skipast veður, því þegar flauta dómara gall til merkis um leikslok höfðu Blikarnir náð að skora 4 sinnum og sigra 5-2. FH-ingar gengu því vonsviknir af leikvelli sem eðlilegt er því frammistaðan var lengst af góð þó svo að rúsínan í pylsuendanum að þessu sinni hafi verið með súrara móti.

Við vorum nokkurn tíma að ná áttum í leiknum og vorum í eltingarleik fyrsta korterið. Menn voru alltof langt frá sínum mönnum og við vorum ósamtaka. Blikar náðu enda forystunni en markið var af ódýrara taginu - já eins og sokkapar í janúarútsölu.

Eftir það unnum við okkur vel inn í leikinn og Flóki jafnaði metin á síðustu mínútu fyrri hálfleiks.

1-1 í hálfleik.

Jafnræði var í seinni hálfleik en í sjálfu sér lítið um færi. Böðvar náði forystunni um 15 mínútum fyrir leikslok þegar hann slapp inn fyrir vörn Blika og afgreiddi boltann snyrtilega í nærhornið.

Í sjálfu sér voru engin teikn á lofti að Blikar næðu að jafna leikinn, hvað þá meira en nú fór af stað skrýtin atburðarás. Breiðablik fékk aukaspyrnu um 10 metrum fyrir utan vítateig og boltinn rataði í netið. Við vorum varla búnir að taka miðju þegar Blikar náðu forystu. Nú virtist einbeitingin endanlega fokin út í veður og vind og Kópavogsliðið stráði salti í opið sár með tveimur mörkum til viðbótar í uppbótartíma.

Afgreiðum eitt út af borðinu. Það var ótrúlega aulalegt að klúðra þessu undir lokin. Við verðum að halda einbeitingu allt til leiksloka en ekki missa okkur í svekkelsi, það hjálpar aldrei til.

Hins vegar getum við svo sannarlega tekið margt jákvætt út úr leiknum. Meirihluta leiksins sýndum við að við höfðum í fullu tré við Blikana og gott betur. Mér finnst mörg teikn á lofti að við getum staðið okkur vel og orðið gott lið. Baráttan var til fyrirmyndar, dekkningin sem var losaraleg í byrjun var nokkuð góð eftir það. Hins vegar getum við spilað betri fótbolta, liðið á að sjálfsögðu eftir að slípast betur saman, sendingaleiðir og boltalaus hreyfing eru hlutir sem við þurfum og eigum eftir að vinna með. Það eru bara spennandi tímar framundan.


Fífan, 24. október 2009 kl. 14:00, Haustfaxi B-liða.

Breiðablik - FH 1-3 (0-2) Birgir Þór Sigurðsson, Jakob Þór Bergþórsson, Aron Kristján Sigurjónsson.

Liðið: Kristján, Gulli, Jón Már, Hlynur Smári, Snorri, Aron Kristján, Anton, Tindur, Siggi K, Jakob, Biggi Sig, Stefán og Brynjar.

FH-ingar byrjuðu leikinn fjörlega og léku á als oddi(Sun-lolly spurning: Hvað merkir bláletraða orðið?) . Hlaupadýrið og fyrirliðinn Biggi Sig náði forystunni eftir 15 mínútna leik eftir góða sendingu frá Tindi. Um 10 mínútum síðar braust Siggi K upp kantinn eftir gríðarlangt innkast Gulla. Siggi gerði það sem góðir kantmenn gera í stöðu sem þessari; hann sendi fastan bolta niðri í svæðið milli markmanns og varnarlínunnar og þar var kominn markamaskínan Jakob Þór Bergþórsson sem sendi boltann rakleitt í mark Blika frá markteig.

0-2 fyrir FH í hálfleik.

Fyrri hálfleikur var fínn en sá síðari. Tempóið hjá okkur datt aðeins niður og við vorum svona heilt yfir ekki að halda boltanum eins vel og í fyrri hálfleik. Við náðum þó að klára leikinn þegar Aron Kristján skoraði af stuttu færi eftir darraðadans í vítateig þeirr grænklæddu.

Feita konan hafði þó ekki enn þanið raddböndin og Blikar löguðu stöðuna með glæsilegu langskoti rétt fyrir leikslok en góður sigur Hafnarfjarðarliðsins í höfn.

Eins og ég sagði þá var fyrri hálfleikurinn fínn en sá síðari síðri. Við héldum þó árvekni okkar í varnarleiknum og höluðum inn sigurinn. Það er ekki nóg að leggja netin, það þarf líka að hala þau inn fyrir borðstokkinn og það gerðuð þið svikalaust.


Þessir tveir leikir í dag voru skref í rétta átt. Fjölmargir leikmenn gátu ekki spilað sökum veikinda og meiðsla og þá fékk maður gott tækifæri að skoða fleiri leikmenn. Nú veit ég t.d. að Siggi K er örfættur (reyndar hafði mamma hans ekki hugmynd um það!) og Gulli þvær þvottinn sinn sjálfur! Við höldum áfram að æfa vel og spila oft og taka framförum sem lið sem leikmenn.

4 comments:

  1. flóki skoraði ekki brynjar ;)

    ReplyDelete
  2. Anonymous

    svar: spjót
    als = alur sem merkir SPJÓT :D dregið úr íslendingasögunum :D

    ReplyDelete
  3. Anonymous

    Aron Kristján gleimdi nafninu svar: spjót
    als = alur sem merkir SPJÓT :D dregið úr íslendingasögunum :D

    ReplyDelete
  4. Glæsilegt Aron Kristján, þú átt inni ís næst þegar 3. flokkurinn gerir eitthvað skemmtilegt!

    ReplyDelete