Sunday, June 26, 2011

B2 - samantekt á leikjum vikunnar

FH 2 í B-liðum lék þrjá leiki í vikunni og uppskeran var rýr, ekkert stig kom í hús. Á mánudaginn töpuðum við 10-0 fyrir Þrótti í Laugardalnum. Þróttur er með sterkt B-lið en við eigum að gera mun betur en þetta.

Afturelding kom í heimsókn til okkar á þriðjudag en það var frestaður leikur. Mosfellingar byrjuðu betur og skoruðu eftir 13 mínútuna leik. En FH-strákarnir náðu fínum tökum á leiknum og léku betur með hverri mínútu og Anton Freyr jafnaði leikinn á 31. mínútu með lúmsku skoti út við stöng af löngu færi. Við sóttum mun meira fram að hálfleik án þess að ná að skora. Fyrri hálfleikur var fínn en við gáfum tvö ódýr mörk í upphafi seinni hálfleiks og staðan skyndilega orðin 1-3. Við fengum þrjú dauðafæri sem við nýttum ekki og fengum svo mörk í bakið á okkur og enduðum á því að tapa 1-6. Þau úrslit voru alls ekki í samræmi við gang leiksins en að því er ekki spurt

Þriðji leikurinn á 6 dögum var svo í gær á Fjölnisvelli. Það má segja að það hafi verið Gautaborgarstemmning í lofti, um 20 stiga hiti, rakt, flugnasuð og fuglarnir sungu sumrinu óð. Mér leið eins og á velli 1 á Grimbo. Ég var fljótur að rífa mig úr þjálfaraúlpunni og ullarpeysunni góðu. Völlurinn sem við spiluðum á var algjörlega frábær og gæði leiksins voru bara fín, greinilegt að leikmenn beggja liða nutu þess að spila við þessar aðstæður.

Við vorum nokkra stund að ná takti í leiknum og Fjölnismenn voru hættulegri. Þeir vorum með framliggjandi miðjumann sem fékk of mikið pláss og fljóta sentera sem voru tilbúnir að hlaupa í svæði ef miðjumaðurinn fékk tíma á boltann. Fjölnismenn skoruðu einmitt úr þannig upphlaupi eftir um 15 mínútna leik. Við breyttum aðeins skipulaginu og fengum Arnar Helga á miðjuna til að vera í þessu svæði og pikka þennan miðjumann upp. Arnar Helgi er þeim kostum búinn sem er algjörlega nauðsynlegur góðum fótboltamanni að hann talar inn á vellinum. Það er algjörlega nauðsynlegt fyrir lið að leikmenn séu að tala saman inn á vellinum. Annars ættu menn bara að snúa sér að golfi eða einhverjum öðrum íþróttum þar sem að það er beinlínis talið æskilegt að opna ekki á sér munninn.

En sem sagt Arnar Helgi náði ásamt Hans og Tómasi að binda miðjuna betur saman og við náðum betri tökum á leiknum. Oft voru góðir spilkaflar en við náðum ekki að binda endahnútinn á oft lofandi sóknir.

Seinni hálfleikur var mun betri af okkar hálfu. Miðvarðaparið, Brynjar Örn og Hlynur unnu miklu betur saman og bökkuðu hvorn annan upp. Langbesti leikur Hlyns á þessu tímabili sem sýnir hvers hann er megnugur þegar hann er einbeittur. Brynjar er að koma til baka eftir langvarandi meiðsli en hann sýndi mikla yfirvegun á boltann og las leikinn vel. Fjölnismenn fengu voru þó áfram skeinuhættir og fengu nokkur góð færi en Kristófer Óttar átti sannkallaðan stórleik í markinu og bjargaði oft á tíðum meistaralega. Tvímælalaust maður leiksins. En við áttum einnig góðar sóknir og góð færi og eftir eina góða sókn jafnaði Máni Þór Valsson metin þegar hann renndi boltanum á yfirvegaðan hátt framhjá markverði Fjölnis og í netið, ískaldur. Rétt á eftir fengu FH-ingar tvö dauðafæri, Anton Freyr átti til að mynda skot í stöng og svo varði markvörður Fjölnis vel. Það voru þó Fjölnismenn sem skoruðu sigurmarkið þegar um 15 mínútur voru til leiksloka. Við náðum ekki að jafna metin og 2-1 tap staðreynd.

Þrátt fyrir tapið vorum við þjálfararnir ánægðir með ykkar frammistöðu. Þið voruð að leggja vel inn í bankann í leiknum og nú er bara málið að taka út þessa innistæðu með vöxtum í næsta leik gegn Fylki sem er á föstudaginn!

Kristófer Óttar. Átti frábæran leik. Hefði átt að vera betur staðsettur í fyrra markinu og tekið stungusendinguna en var vel staðsettur eftir það. Bjargaði oft meistaralega og lét vel í sér heyra.
Benedikt Arnar: Var dálítið villtur í bakvarðarstöðunni en var virkilega fínn á miðjunni í seinni hálfleik. Var kvikur og ákveðinn og spilaði boltanum einfalt frá sér.
Miðverðirnir voru ekki nógu samtaka í fyrri hálfleik en voru virkilega fínir í þeim síðari. Hlynur hefur verið misjafn í sumar en náði loksins að sína hvað býr í honum. Vann marga skallabolta og náði oft að stinga sér fram fyrir senterinn og hirða boltann. Brynjar Örn hefur misst mikið úr og er að koma smám saman inn aftur og hann stóð sig vel. Vonandi eru meiðslin að baki og hann nái að æfa af krafti. Brynjar stýrði vörninni og las leikinn vel og skilaði boltanum prýðilega frá sér.
Máni: Má koma fyrr upp í sóknina og biðja ákveðnar um boltann. Átti nokkra góða spretti og var ljónharður í vörninni. Skoraði laglegt mark.
Arnar Helgi: Byrjaði á vinstri kanti en var fljótlega skipt á miðjuna þar sem hann átti góðan leik. Góður talandi og dreifði boltanum vel.
Hans Adolf var eins og Husqvarna saumavél á miðjunni. Vann stanslaust, yfirferðin mikil og spilaði boltanum vel frá sér.
Tomasso var sá leikmaður hjá okkur sem við bundum vonir við að hann gæti sprengt upp leikinn með leikni og krafti af miðsvæðinu. Oft tókst það hjá Tómasi, hann átti fínar rispur en hann náði ekki að ná nægilega góðum skotum, né að koma sér í afgerandi færi.
Bjarki var með fína yfirferð á kantinum. Varnarlega gerði hann það vel að draga sig inn þegar boltinn er á gagnstæðum kanti. Sóknarlega er það næsta skref að nýta betur hraðann, bæði með því að tímasetja vel hlaup inn fyrir vörnina í svæði og með því að taka bakvörðinn á þegar hann er einn á móti einum.
Þorlákur var einn af bestu mönnum okkar gegn Aftureldingu en það var greinilegt að hann gekk ekki heill til skógar í leiknum. Láki er vanur að þefa upp nokkur færi í leik en það var greinilegt að meiðslin drógu úr honum. Það vantaði stundum herslumuninn á að hann kæmi sér í skotfæri en hann náði ekki að munda sinn eitraða skotfót.
Anton Freyr þefar upp færi eins og kettir fisk. Hann fékk nokkur færi í gær og var nálægt því að setjann en því miður gekk það ekki upp.
Svabbi var rokksolid í vinstri bakverðinum. Eins og Denis Irwin á góðum degi. Lokaði svæðinu og spilaði boltanum vel frá sér.
Benedikt Fannar glímdi við hörkukantmann hjá Fjölni en hann náði að halda honum að mestu leyti í skefjum. Staðsetti sig vel og átti a.m.k. eina tæklingu sem bjargaði mögulega marki. Var ákveðinn og spilaði boltanum vel frá sér.

2 comments:

  1. Kemst ekki í dag útaf bakinu - Emil Freyr

    ReplyDelete
  2. Kem ekki í dag, er veikur.

    -Úlfar

    ReplyDelete