Það er alltaf eftirvænting í loftinu þegar Íslandsmótið fer af stað. Ilmur af nýslegnu grasi og fuglasöngur í lofti.
A-liðið: FH - KF/Tindastóll 4-2 (Ingvar 3, Siggi K1).
Við renndum nokkuð blint í sjóinn í A-leiknum. Andstæðingar voru sameiginlegt lið Fjallabyggðar (Siglufjörður og Ólafsfjörður) og svo byggðirnar í Skagafirði (Tindastóll frá Sauðárkróki, Hvöt frá Blönduósi og Neisti frá Hofsósi). Okkur grunaði að þetta gæti verið nokkuð sterkt lið og sú varð raunin.
Þeir eru með góðan markmann sem er með langar og góðar spyrnur fram völlinn. Norðanmenn nýttu hvert einasta tækifæri þegar þeir fengu aukaspyrnur að senda háa og langa bolta að okkar marki og einnig eru þeir hættulegir í hornspyrnum. Það þarf að vanda sig vel við að verjast svona boltum, sérstaklega á móti vindi.
Norðanmenn náðu forystunni í leiknum eftir um 10 mínútna leik með þrumuskoti, þar vorum við ekki nógu snöggir að loka á skotið en Ingvar náði að jafna skömmu seinna. Við vorum dálítinn tíma að átta okkur á aðstæðum. Völlurinn var ósléttur og talsverður mótvindur. Það sem vantaði var meira tempó í uppspilið og að við værum að horfa meira fram á við. Ef við erum alltaf í stuttum sendingum er svo auðvelt að lesa okkur og setja pressu á okkur sem gerir allt uppspil erfiðara og þá þurfa varnarmenn andstæðingana aldrei að hafa áhyggjur af svæðinu fyrir aftan sig. En um leið og við fórum að blanda saman stuttum og löngum sendingum og setja boltann í svæði fyrir aftan vörnina þá lentu þeir í bullandi vandræðum og við náðum betri tökum á leiknum. Ingvar og Siggi K. bættu við mörkum fyrir hlé og því 3-1 í hálfleik.
Við vorum ekki nógu grimmir að setja mark á þá í byrjun seinni hálfleiks og klára leikinn, í stað þess náðu þeir að minnka muninn með ódýru marki. Þeir fengu upphlaup, stungu inn á senterinn sem komst einn inn fyrir og skoraði. Í þessu tilviki áttum við að bakka því það var engin pressa á manninum með boltann og því tilviki er erfitt að ætla sér að spila senterinn rangstæðan.
Eftir það fengum við nokkur færi til að gera út um leikinn en tókst ekki fyrr en Ingvar setti glæsilegt mark úr aukaspyrnu og tryggði okkur góðan 4-2 sigur.
Við getum vissulega spilað betur og það er margt sem við getum fínpússað og slípað en það var líka margt jákvætt. Við skoruðum 4 mörk og sköpuðum fullt af færum og baráttan og viljinn var sannarlega til staðar og skilaði okkur góðum sigri sem í fyrsta leik skipti öllu máli.
B-lið FH2 - Fjölnir 2 3-1 (Anton Gunnar 2, Úlfar 1).
B2-liðið vann einnig góðan sigur í fyrsta leik. Við vorum sterkari aðilinn allan leikinn. Í fyrri hálfleik lékum við gegn norðangjólunni, við vorum mikið með boltann og sýndum oft lipran samleik en náðum ekki að skapa okkur nægilega mikið af færum.
Við mættum hinsvegar virkilega ákveðnir til seinni hálfleiks. Við færðum Sólon enn framar á völlinn og jukum sóknarþungann. Þetta virkaði vel því við sköpuðum okkur miklu meira. Úlfar náði forystunni á 51. mínútu og Anton Gunnar bætti við tveimur góðum mörkum.
Heilt yfir var liðið að leika vel og þeir sem komu inná áttu fína innkomu. Það eina sem hægt er að gagnrýna er nýtingin á færunum.
En þrjú góð stig í hús í fyrsta leik!
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment