Það voru skin og skúrir á rennblautu miðgrasinu í dag eða öllu heldur skúrir og skin.
Anton og Lalli voru veikir í dag og Jón Már meiddur og mér fannst við nokkuð lengi að ná takti í okkar leik. Það var ekki nógu góð hreyfing á okkur í uppspilinu og margir hverjir notuðu of margar snertingar. Varnarvinna liðsins í heild var slök og það heyrðist ekki í nokkrum manni. Það er ekki hægt að spila fótbolta svo vel sé án þess að tala. Kannski hefðum við átt að láta ykkur horfa á B-leikinn og sjá Atla Fjölnis fremstan meðal jafningja tala og gefa skipanir allan leikinn? Hann samkjaftaði ekki frekar en súla í bjargi.
Þetta var slakur leikur. Vonandi eru menn ekki orðnir of góðir með sig eftir ágætt gengi og halda að þeir þurfi ekki að leggja sig alla fram til að ná úrslitum.
B-liðið vann 4-1 og tryggði sér þar með sigur í riðlinum með fullu húsi stiga sem er vel af sér vikið. Tómas skoraði fyrsta markið og Sólon bætti öðru marki við fyrir hlé. Blikarnir komu ákveðnir til leiks eftir hálfleikinn og minnkuðu muninn. En FH-ingar voru ekki á því að gefa neitt eftir, Úlfar bætti við þriðja markinu og Tindur innsiglaði sigurinn með sennilega glæsilegasta marki sumarsins enn sem komið er þegar hann skaut viðstöðulaust efst í markhornið af 30 metra færi.
Fínn leikur hjá okkur en við þufurm samt að vera með það á hreinu að við mætum geysisterkum liðum í undanúrslitum (annaðhvort Fylkir eða Fjölnir) og við þurfum enn að bæta okkar leik. Margir léku vel og það er ljóst að það er hörkusamkeppni um stöður í liðinu.
Við þjálfararnir viljum óska báðum liðum til hamingju með að vinna deildina og komast í úrslit. Það var markmiðið og við höfum náð því. Bæði lið hafa bætt leik sinn jafnt og þétt í sumar og þrátt fyrir að A-liðið hafi tapað tveimur síðustu leikjunum skulum við vona að það hafi verið sú blauta tuska í andlitið sem við þurfum á að halda.
Frí á morgun en á þriðjudaginn munum við kynna fyrir ykkur dagskrá fram að úrslitakeppni því við ætlum að vinna vel og skipulega fram að henni og vera klárir í slaginn.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment