Saturday, August 27, 2011

KR-leikirnir

Það voru vonbrigði að tapa okkar fyrsta leik en eins og við töluðum um fyrir leikinn þá vissum við að KR er með gott lið og við þyrftum að vera upp á okkar besta. Við vorum það ekki og því fór sem fór. Við vorum ekki á tánum í fyrri hálfleik og vorum 2-0 undir í hálfleik. Við tókum okkur verulega á og stóðum okkur virkilega vel í seinni hálfleik, náðum að jafna 2-2 og áttum að klára þetta en þeir fengu víti  í uppbótartíma og kláruðu þetta 3-2.
Mjög svekkjandi en þetta kennir okkur að koma tilbúnir til leiks með uppbrettar ermar. Við þurfum að láta finna fyrir okkur frá fyrstu mínútu, vinna fyrstu návígin og tæklingarnar og stimpla okkur inn. Þið sýnduð mikla samstöðu og baráttu að koma ykkur inn í leikinn en þetta datt ekki með okkur í þetta skiptið. En besta ráðið við að losna við beiskt bragð ósigurs úr kjaftinum er að vinna næsta leik og við erum svo heppnir að við fáum tækifæri til þess strax á morgun.


B-liðið vann 1-5 sigur í skrýtnum leik. Mér fannst við hreinlega á hælunum í fyrri hálfleik. Við héldum boltanum illa, vorum seinni í alla bolta og dekkuðum sérlega illa í föstum leikatriðum og vorum hreinlega heppnir að vera ekki undir í hálfleik. Tindur skoraði glæsilegt mark beint úr aukaspyrnu og gaf okkur 0-1 forystu. Seinni hálfleikur var miklu betri og að lokum unnum við öruggan sigur en Tindur bætti við tveimur mörkum og Úlfar og Gunnar Davíð einu hvor. B-liðið er því efst með fullt hús stiga og hefur tækifæri til að setja punktinn yfir i-ið á morgun með sigri!

No comments:

Post a Comment