Sunday, May 29, 2011

Tap hjá B2 í Árbænum en sigur hjá A í Safamýri

B2-liðið mættu frísku liði Fylkis í Árbænum á föstudagskvöldið í blíðskaparveðri. Fylkismenn voru mun sterkari í fyrri hálfleik og leiddu 2-0 í hálfleik. FH-ingar voru langt frá sínu besta í fyrri hálfleik en tóku á sig rögg og léku mun betur í þeim síðari en það dugði ekki að þessu sinni því þeir appelsínugulu bættu við einu marki og unnu 3-0.

A-liðið mætti í Safamýrina í gær. Við vorum talsvert sterkari aðilinn og unnum 1-0 með marki frá Sigga K í fyrri hálfleik. Okkur tókst ekki að bæta við marki þrátt fyrir góð færi en vörnin hélt vel og við tókum þrjú stig í Fjörðinn.

Það var margt jákvætt en við getum og verðum að spila miklu betur og hér eru nokkrir punktar sem við megum bæta:

Vinnusemi, dugnaður og ákveðni. Grunnatriði í fótbolta sem verða að vera í lagi ef árangur á að nást.

Vinna 2. bolta. Það var áberandi þegar við fórum upp í skallabolta eða návígi að oft var enginn samherji í 20 metra radíus. Við verðum að reyna að átta okkur á hvar boltinn fellur og vinna hann og svo getum við gefið breidd.

Talandi. Oft vorum við að finna menn í fætur þar sem þeir gátu snúið með boltann en það vantaði að tala með sendingunni.

Færa boltann úr svæði. Framararnir bökkuðu og færðu liðið vel eftir hvar boltinn var. Það sem vantaði hjá okkur var að hreyfa boltann hraðar og skipta milli kanta.

Böddi má koma framar. Þú þarft ekkert að vera á handbremsunni. Bakverðir eiga að vera óhræddir við að koma upp vænginn. Við erum alltaf með miðjumann í svæðinu á bakvið og báða miðverðina.

Klárum leikinn saman. Hvort sem við eigum góðan leik, frábæran leik eða slakan leik þá verðum við að halda ákveðnum ramma um leikina. Það er góð regla að hópurinn skokki sig niður eftir leiki, teygi og fái sér jafnvel að drekka og ræði um leikinn. Þegar við förum í upphitun þá er allur hópurinn saman og eftir leik þá er allur hópurinn saman að skokka sig niður.

Sigur er sigur! Stundum teljum við okkur geta spilað betur og eðlilega viljum við spila vel, en munum að þetta gengur út á það að vinna og það á alltaf að fagna sigri sama hvernig leikurinn hefur þróast! Það er gott að halda í ákveðna hefð og fara allir saman inn í klefa eftir leiki og taka hringinn og fagna sigrinum.


Við erum með 6 stig eftir tvær umferðir, það er ekki hægt að biðja um meira en það. Það sem skiptir mestu máli í fyrstu umferðunum meðan lið er að finna taktinn er að innbyrða sigur og það hafið þið gert.

Framundan er toppslagur gegn ÍA á fimmtudag og við vitum að við þurfum að spila miklu betur en í gær til að vinna þann leik og við verðum að koma virkilega ákveðnir til leiks.

No comments:

Post a Comment