
Páskamót 3. flokks fór fram með miklum glæsibrag í dag. Skipt var í 5 lið og spilaður Brazzi. Það er skemmst frá því að segja að mislitir rúlluðu deildinni upp á óvenju sannfærandi hátt. Þeir náðu 10 stigum en grænir voru næstir með 4 stig en hin liðin öll með 2 stig.
Lið mislitra var eins og vel smurð vél og spiluðu sem þaulæfð sinfóníuhljómsveit. Ingvar Campos stóð í búrinu. Í þriggja manna varnarlínu sem samanstóð af Gunnari Neville, Jóni Arnari og Hlyni var enginn veikur hlekkur. Böddi hélt á smurolíukönnunni á miðjunni og var eins og geltandi bolabítur. Vann ófáa boltana sem hann dældi á Brynjar Smára og Antonio sem skoruðu grimmt.

Þar sem mislitir voru óvenjufljótir að afgreiða deildina var ljóst að það þyrfti að taka bikarkeppnina. Þar voru grænir heldur betur á heimavelli en þeir voru fyrstir upp í 4 stig en þá fengu rauðir 2, mislitir og gulir 1 en appelsínugulir ráku lestina án stiga. Hér má sjá hið mikla bikarlið grænna. Brynjar, Guðmundur Orri, Stefán, Þorgeir og Siggi K í efri röð en Aron Elí og Svavar sitja eins og indíánahöfðingjar í þeirri neðri.
Í lokin var tekin hin sívinsæla vítakeppni milli liða og eftir gríðarlega spennu stóðu rauðir uppi sem sigurvegarar með Kristófer "vítabana" Kristinsson milli stanganna. Sigur rauðra var nokkuð sannfærandi en þeir sýndu ótrúlegan taugastyrk. Minntu jafnvel á Horst Hrubesch sem kallaður var "maðurinn með stáltaugarnar" eftir að hann setti víti í bráðabana í ótrúlegum undanúrslitaleik Þjóðverja og Frakka á HM á Spáni '82. Lið rauðra var svo skipað. Efri röð: Arnar Steinn, Sindri Snær, Snorri og Ellert. Neðri röð: Brynjar Örn, Kristófer og Alex Birgir.

Nú verður nokkra daga frí frá æfingum en næstu æfingar eru mánudaginn 5. apríl á hefðbundnum æfingatíma. Gleðilega páska og hafið það gott í fríinu!
No comments:
Post a Comment